01.10.2010

Rio Tinto Alcan fjárfestir fyrir 16 milljarða til að framleiða verðmætari vöru í Straumsvík

Rio Tinto Alcan hefur ákveðið að verja 140 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 16 milljörðum króna, til breytinga á framleiðsluferli álversins í Straumsvík. Í stað barra verða framleiddir svonefndir boltar (sívalar stangir), sem eru verðmætari afurð.

Með þessu styrkir Rio Tinto Alcan stöðu sína á markaði í Norður-Evrópu og eflir þjónustu sína við viðskiptavini á þessu mikilvæga markaðssvæði. Fjárfestingin endurspeglar þá stefnu fyrirtækisins að vera öflugur framleiðandi á hágæðavöru af þessari gerð.

„Við erum sannfærð um að eftirspurn fyrir álbolta verði góð í Evrópu og það mun gera okkur kleift að festa okkur í sessi á þessum þýðingarmikla markaði. ISAL notar græna orku og losar lítið af gróðurhúsalofttegundum og getur því framleitt bolta á umhverfisvænni hátt en önnur álver. Aðkoma ISAL að framleiðslunni styrkir einnig stöðu okkar með hliðsjón af því að álverið hefur reynst afar áreiðanlegur framleiðandi á hágæðavörum,“ segir Gordon Hamilton, framkvæmdastjóri á sölu- og markaðssviði Rio Tinto Alcan.

Önnur álver Rio Tinto Alcan í Frakklandi og á Bretlandi munu taka við hluta af barraframleiðslunni sem ISAL hefur sinnt fram til þessa.

Gert er ráð fyrir að boltaframleiðsla hefjist í Straumsvík árið 2012 og að alfarið verði búið að skipta yfir í boltaframleiðslu fyrir árslok 2014.

Þetta verkefni er til viðbótar við 347 milljóna Bandaríkjadala fjárfestingu í uppfærslu á búnaði og 20% framleiðsluaukningu álversins sem tilkynnt var um 23. september sl. í kjölfar þess að endanlega var gengið frá langtímasamningi við Landsvirkjun um orkukaup álversins.

Ítarefni:

Lykilstaðreyndir um verkefnið:

  • Heildarfjárfesting: 140 milljónir dollara eða 16 milljarðar króna
  • Ársverk sem framkvæmdin kallar á: 150
  • Tilgangur: að breyta framleiðslunni úr börrum í bolta (sívalar stangir) sem eru verðmætari afurð
  • Áætlað hámark framkvæmda: maí/júní 2011 með 150 manns við störf við verkefnið
  • Áætluð lok framkvæmda: á fyrri árshelmingi 2012 en seinni áfangi í árslok 2014
  • Býr til hátt í 20 ný störf til frambúðar
  • Kemur til viðbótar straumhækkunarverkefninu sem tilkynnt var um í liðinni viku
  • Alls nemur fjárfesting í báðum verkefnunum 57 milljörðum króna
  • Alls kalla bæði verkefnin á 620 ársverk

Rio Tinto Alcan hefur ákveðið að ráðast í breytingar á steypuskála álversins í Straumsvík í því skyni að hefja framleiðslu á svokölluðum boltum (það eru sívalar stangir) í stað barra. Þetta styrkir rekstur álversins, enda eru boltar verðmætari framleiðsluafurð en barrar, og eflir jafnframt stöðu Rio Tinto Alcan á mikilvægum markaði fyrir hágæðavöru í Evrópu.

Um er að ræða fjárfestingu upp á 140 milljónir Bandaríkjadollara eða um 16 milljarða króna. Stór hluti kostnaðarins er vegna kaupa á nýrri framleiðslulínu en einnig felast í verkefninu talsverðar framkvæmdir, einkum við steypuskála álversins. Flatarmál steypuskálans mun aukast nokkuð en þó er að mestu leyti um það að ræða að lagerbyggingar við steypuskálann verða fjarlægðar og byggt yfir nýju framleiðslulínuna á nákvæmlega sama stað.

Bróðurpartur framkvæmdanna fer fram á næsta ári og þær ná hámarki fyrri part sumars. Gert er ráð fyrir að boltaframleiðsla hefjist á árinu 2012. Verkefninu lýkur þó ekki að fullu fyrr en í árslok 2014 og verða þá aðeins framleiddir boltar í álverinu en engir barrar.

Framkvæmdir vegna þessa verkefnis kalla á 150 ársverk. Um það bil 20 ný störf verða til í álverinu til frambúðar, því boltaframleiðsla kallar á fleiri sérfræðinga í steypuskála og fleiri starfsmenn við útskipun.

Umhverfisáhrif breytinganna eru hverfandi. Vatnsnotkun steypuskála eykst en gert er ráð fyrir að þeirri þörf verði mætt að mestu eða jafnvel öllu leyti með því að endurnýta kælivatn úr öðrum þáttum starfseminnar.

Úr boltum eru framleiddir margvíslegir prófílar með þrýstimótun, t.d. fyrir byggingariðnað og bílaframleiðendur.

Þetta verkefni kemur til viðbótar straumhækkunarverkefninu sem tilkynnt var um í liðinni viku. Samanlögð fjárfesting í því verkefni og ofangreindum breytingum á framleiðslu í steypuskála nemur 57 milljörðum króna. Samtals kalla þær á 620 ársverk.
 
Það felst mikil viðurkenning í því að ISAL skuli verða fyrir valinu með svo umfangsmiklar fjárfestingar. Kemur þar einkum tvennt til: annars vegar góður rekstur og áreiðanleiki hvað varðar gæði og afhendingu á sérhæfðum vörum frá ISAL og hins vegar hin hreina orka sem knýr álverið ásamt góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í álverinu sjálfu, en frá 1990 hefur tekist að minnka losun þeirra um 75% á hvert framleitt tonn.

ISAL hefur sýnt mikinn metnað í öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismálum. Hann birtist meðal annars í því að fyrirtækið var önnur tveggja starfsstöðva Rio Tinto í heiminum sem hlutu öryggisviðurkenningu forstjóra Rio Tinto fyrr á þessu ári. Þá losaði fyrirtækið árið 2008 minna af flúorkolefnum (sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir) en nokkurt annað álver í heiminum samkvæmt árlegri könnun Alþjóðasamtaka álframleiðenda og hefur tekist að draga enn úr þeirri losun síðan.

Álverið hefur jafnframt verið öflugur vinnuveitandi í yfir 40 ár. Starfsmenn ISAL eru um 450 en auk þess vinnur fjöldi verktaka að meira eða minna leyti fyrir álverið, að ótöldum afleiddum störfum. Umfangi afleiddrar starfsemi er best lýst með þeirri staðreynd að árlega kaupir ISAL vörur og þjónustu af yfir 800 innlendum aðilum fyrir um 5 milljarða króna. Alls verða um 40% af veltu fyrirtækisins eftir á Íslandi eða um 1,5 milljarðar króna í hverjum mánuði.

Fyrirtækið leggur einnig ríka áherslu á að starfa í sátt við samfélagið. Upplýsingagjöf gegnir þar lykilhlutverki og birti fyrirtækið m.a. á þessu ári ítarlega sjálfbærniskýrslu í fyrsta sinn, en áður hafði verið gefið út grænt bókhald um árabil.

Straumhækkunarverkefnið, nýr raforkusamningur við Landsvirkjun og breytingarmar á framleiðslu álversins sem nú er tilkynnt um styrkja álverið og treysta starfsemi þess til framtíðar, jafnframt því sem framkvæmdirnar munu hafa veruleg jákvæð áhrif fyrir íslenskt efnahagslíf.


« til baka

Fréttasafn

2024

febrúar, janúar

2023

október, janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar