Hvað eru gróðurhúsaáhrif?

Gróðurhúsaáhrif eru forsenda lífs á jörðinni. Þau eru náttúruleg og án þeirra væri meðalhitastig á jörðinni -18 °C en ekki +15 °C.  Orka frá sólinni kemst í gegnum gufuhvolf jarðar í formi sólargeislunar. Yfirborð jarðarinnar gleypir megnið af geisluninni og hitnar. Frá heitu yfirborði jarðarinnar streymir varmageislun til baka í formi innrauðrar geislunar. Lofthjúpurinn gleypir hluta af varmageislun yfirborð síns og endurkastar þeim aftur til jarðar. Við það hitna yfirborð jarðar og neðsti hluti gufuhvolfsins enn frekar. Því má líkja lofthjúpnum við gróðurhús þar sem hann hleypir í gegnum sig sólargeislum, en heldur varmageislum frá jörðinni inni. Þetta köllum við gróðurhúsaáhrif.

Talið er að nokkrar lofttegundir geti aukið gróðurhúsaáhrif í andrúmsloftinu. Þær eru kallaðar gróðurhúsalofttegundir. Aukning á losun gróðurhúsalofttegunda kann að valda röskun í vistkerfinu svo sem hitaaukningu, breytingu á veðurfari og hækkun yfirborðs sjávar. Dæmi um gróðurhúsalofttegundir eru koltvísýringur (CO2), metan (CH4), óson (O3), vatnsgufa (H2O), díköfnunarefnisoxíð (N2O), brennisteinshexaflúoríð (SF6) og ýmis halógenkolefni.

Okkar áherslur

  • Okkur finnst mikilvægt að starfsemin sé í sátt við umhverfið og í anda sjálfbærrar þróunar.
  • Við fylgjum í einu og öllu þeim lögum og reglum sem gilda.
  • Við viljum vera fyrirmynd annarra á sviði umhverfismála.
  • Við höfum vottað umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001.
  • Við leggjum áherslu á heiðarlega upplýsingagjöf.