Grunnnám við Stóriðjuskólann

Útskrift Stóriðjuskólans í janúar 2005Árið 1998 var Stóriðjuskólinn stofnaður en forsögu hans má rekja til kjarasamnings frá árinu 1997 milli ISAL og hlutaðeigandi verkalýðsfélaga, þ.á m. Verkalýðsfélagsins Hlífar. Samningsaðilar töldu það til hagsbóta fyrir bæði fyrirtækið og starfsfólk að efla starfsmenntun hjá ófaglærðu starfsfólki. Stofnun skólans var mikið framfaraskref þar sem ekkert nám tengt stóriðju var í boði í almenna skólakerfinu.

Markmið skólans er að efla fagþekkingu starfsmanna, auka möguleika á starfsþróun og efla samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Með þessu námi var lagður grundvöllur að starfsnámi fyrir ófaglært fólk og því gefinn kostur á viðurkenningu fyrir þá fagþekkingu sem það hefur aflað sér í starfi.

Skólinn hlaut Starfsmenntaverðlaunin árið 2000 en þau eru veitt af Starfsmenntaráði og Mennt. Árið 2002 öðlaðist skólinn viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins þegar námsefni og námskrá skólans voru samþykkt og metin til allt að 34 eininga á framhaldsskólastigi. Námið er 325 kennslustundir og dreifist á þrjár annir. Þeir sem ljúka grunnnámi hljóta starfsheitið stóriðjugreinir.

Námið er ætlað þeim sem hafa aflað sér verklegrar reynslu og þekkingar í stóriðju og vilja bæta við sig fræðilegri undirstöðu. Námið gefur faglega yfirsýn og því eru stórðiðjugreinar sannarlega fagmenn á sviðinu. Til að geta sótt um í skólanum þarf starfsmaður að hafa starfað hjá okkur í 45 mánuði eða tæp 4 ár.

Ávinningur af fræðslustarfi

Ávinningurinn af símenntun og fræðslu er margvíslegur. Þessir eru helstu kostirnir:

  • Öruggari vinnustaður
  • Hæfara starfsfólk
  • Jákvæðara starfsfólk
  • Aukin verðmætasköpun
  • Auðveldari innleiðing breytinga
  • Sameiginlegur skilningur á viðfangsefnum
  • Sterkari samkeppnisstaða fyrirtækisins
  • Eftirsóknarverðari vinnustaður
  • Aukin verðmætasköpun
  • Aukin starfsánægja