10.11.2005

Íslensku gæðaverðlaunin í okkar hlut

Íslensku gæðaverðlaunin voru afhent í hádeginu í dag en þá var tilkynnt að í ár kæmu þau í okkar hlut. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, afhent verðlaunin og Rannveig Rist tók við þeim fyrir okkar hönd.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir starfsmenn því verðlaunin eru ein þau eftirsóttustu sem veitt eru fyrirtæki eða stofnun á Íslandi. Íslensku gæðaverðlaunin eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Samtaka atvinnulífsins, forsætisráðuneytisins, Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Stjórnvísis og hafa verið veitt árlega frá árinu 1997.

Ákvörðun um verðlaunahafa hvers árs er tekin á grundvelli EFQM líkansins, þar sem mikilvægir þættir í stjórnun fyrirtækja og stofnana eru metnir. Sérþjálfaðir matsmenn meta þau sem koma til greina og velja svo sigurvegarann úr þeirra hópi. Markmiðið er að veita viðurkenningu fyrir raunverulegan stjórnunarárangur og jafnframt hvetja fyrirtæki til að setja sér skýr markmið og leggja mat á árangurinn reglulega.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem fyrirtækið fær viðurkenningu fyrir vel unnin störf en aðeins eru fáeinar vikur frá því að Fjöreggið kom í okkar hlut.


« til baka