03.07.2006

Vægast sagt sérkennileg frétt var birt í sjónvarpsfréttum NFS laugardaginn 1. júlí, þar sem beinlínis var farið með ósannindi varðandi starfsemi Alcan í Straumsvík.   Í fréttinni var fullyrt, að þúsundir Hafnfirðinga yrðu í lífshættu ef klórgas sem álverið notaði læki út í andrúmsloftið, enda væri efnið hættulegra en blásýra og notað í eiturefnahernaði.

Umrædd frétt er í alla staði fráleit og ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að hún hafi verið skrifuð gegn betri vitund fréttamanns. Við vinnslu fréttarinnar sl. laugardag óskaði fréttamaður eftir viðtali við öryggisstjóra Alcan, þannig að fyrirtækið gæti komið réttum upplýsingum á framfæri en að sögn fréttamanns hafði NFS fengið ábendingar um að hætta væri á klórslysi í Straumsvík.  Fréttin um kvöldið var hins vegar ekki í nokkru samræmi við efni málsins og fullyrðingar um að þúsundir manna væru í lífshættu voru ekki studdar neinum rökum – enda fráleitar.

Alcan á Íslandi hefur um árabil verið fyrirmynd annarra varðandi öryggi á vinnustað.  Öryggisstjórnun hjá fyrirtækinu er alþjóðlega vottuð og samstarf okkar við Vinnueftirlit ríkisins er mikið og gott.  Áhættugreiningar, mikil öryggisvitund starfsmanna og traust verklag hefur tryggt góðan árangur í öryggismálum um langa hríð og meðhöndlun klórs á athafnasvæði álversins fylgir líklega strangari reglum en hjá nokkru öðru fyrirtæki á Íslandi.  Rýmið þar sem klór er geymdur hjá fyrirtækinu er útbúið samkvæmt mjög ströngum stöðlum og ef minnsti leki kemur upp er klórinn hlutleystur með lút sem dælt er inn í rýmið.  Bæði rýmið sjálft og verklag við meðhöndlun klórs er viðurkennt af Vinnueftirlitinu.  Og jafnvel þótt enginn slíkur búnaður væri til staðar og klórgas læki út í andrúmsloftið þá standast ekki fullyrðingar um að þúsundum manna í nágrenninu stafaði hætta af.  

Það er mikið ábyrgðarleysi að setja fram fullyrðingar eins og þær sem hér um ræðir.  Með frétt NFS var að ósekju skapaður ótti meðal nágranna álversins, starfsmanna og aðstandenda þeirra. Við kveinkum okkur ekki undan réttmætri umfjöllun um málefni fyrirtækisins, en í þetta sinn var gengið of langt.


« til baka