04.02.2011

ISAL hlýtur forvarnarverðlaun VÍS

Ráðstefnan Forvarnir í fyrirrúmi var haldin í annað sinn gær, en þar veitti VÍS viðurkenningar fyrir góðan árangur í forvörnum og öryggismálum og afhenti Forvarnarverðlaun VÍS. Að þessu sinni hlutu þrjú fyrirtæki viðurkenningar fyrir góðan árangur í forvörnum og öryggismálum, en það voru Rio Tinto Alcan, Innes ehf. og Serrano.

Rio Tinto Alcan hreppti að auki Forvarnarverðlaun VÍS 2011 þar sem fyrirtækið er talið vera öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar þegar kemur að forvörnum. Fyrirtækið hlaut nýlega æðstu verðlaun móðurfyrirtækisins Rio Tinto á sviði forvarna og öryggismála og starfsmenn fyrirtækisins hafa náð þeim einstæða árangri að vinna fimm milljónir vinnustunda án alvarlegra slysa. Rio Tinto er í hópi stærstu fyrirtækja í heimi og því er það mikill heiður fyrir starfsfólk álversins í Straumsvík að hljóta slíka útnefningu innan svo stórrar samstæðu. Starfsmenn fyrirtæksins vinna samkvæmt skýrum reglum um hvernig fyrirbyggja megi slys en framkvæmd áhættumats verkþátta og skráning atvika sem betur mega fara eru meðal þeirra þátta sem hafa gert fyrirtækinu kleift að ná þessum árangri.

Hjá Innnesi ehf. taka sérfræðingar í öryggismálum reglulega út starfsemi fyrirtækisins og utanaðkomandi sérfræðingar sinna jafnframt viðhaldi og eftirliti innan þess. Þá markaði Innnes ehf. sér nýja stefnu í umhverfismálum á síðasta ári meðal annars með áherslu á notkun metanbíla og skilvirkri flokkun á rusli.

Serrano hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á öryggismál og forvarnir. Meðal annars starfrækir fyrirtækið skóla þar sem starfsmönnum eru kynnt sérstaklega forvarnir, gæða- og öryggismál þess. Þá er til áhættumat fyrir allar deildir sem er endurskoðað árlega. Fyrir vikið hefur Serrano alltaf fengið fullt hús stiga á forvarnargátlista VÍS.

 

Á meðfylgjandi mynd eru Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS og Halldór Halldórsson öryggisstjóri Rio Tinto Alcan í Straumsvík með Forvarnarverðlaun VÍS 2011.


« til baka