14.11.2012

Aðkeypt verkfræðiþjónusta fyrir 11 þúsund milljónir

Rio Tinto Alcan á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík, hefur á tæpum fjórum árum, þ.e. frá árinu 2009 til dagsins í dag, keypt þjónustu af íslenskum verkfræðistofum fyrir um 11 þúsund milljónir króna.

 

Til að setja þessa tölu í samhengi má nefna að hún er ívið hærri en framlag ríkisins til Háskóla Íslands árið 2011 (9,9 milljarðar) og sambærileg öllum útgjöldum ríkisins til löggæslu sama ár (11,5 milljarðar).

 

Þyngst vegur hönnunarvinna og verkumsjón með 60 milljarða króna fjárfestingarverkefni í Straumsvík, sem hefur að miklu leyti verið í höndum íslenskra verkfræðinga.

 

Álverið í Straumsvík kaupir vörur og þjónustu af hundruðum íslenskra fyrirtækja. Alla jafna nema þau viðskipti 5-7 milljörðum króna á ári, fyrir utan rafmagn. Fjárhæðin er birt opinberlega í árlegri sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins, sem send er helstu hagsmunaaðilum og birt á vefnum. Eftir að fjárfestingarverkefnið fór á fullan skrið hækkaði þessi fjárhæð umtalsvert og nam 14,3 milljörðum árið 2011.

 

Rétt er að minna á að allar tekjur álversins koma erlendis frá. Hér er því um að ræða hreina innspýtingu á erlendum gjaldeyri í íslenskt efnahagslíf.


« til baka