31.12.2012

Við áramót

Tvennt þykir mér standa upp úr þegar horft er til baka yfir árið sem nú er á enda.

Annars vegar þau merku tímamót sem urðu í sumar þegar við hófum framleiðslu á nýrri og verðmætari afurð. Að baki því verkefni er margra milljarða króna fjárfesting sem mörg íslensk fyrirtæki, svo sem verkfræðistofur og verktakar, nutu góðs af á framkvæmdatímanum. Eins og gjarnan vill verða þegar miklar breytingar eru gerðar fól verkefnið í sér margvíslegar áskoranir, sumar fyrirséðar en aðrar ekki. Fjölmargir starfsmenn ISAL sýndu bæði þrautseigju og úrræðasemi gagnvart þeim áskorunum og eiga mikið hrós skilið. Gleðilegt er að hinir kröfuhörðu kaupendur vörunnar - sem allir eru að kaupa ál af ISAL í fyrsta sinn - hafa lýst yfir ánægju með gæðin.

Hitt sem stendur upp úr eru alvarlegu slysin tvö sem urðu með skömmu millibili snemma á árinu. Fyrst féll starfsmaður úr ökutæki sem ekið var á stólpa og síðan féll byrði úr krana ofan á fót starfsmanns. Reynslan erlendis frá sýnir að orðtakið "sjaldan er ein báran stök" á því miður oft við þegar slys eru annars vegar. Við höfum dregið lærdóm af þessum slysum og stöndum við þá sannfæringu að unnt sé að koma í veg fyrir öll slys. Góður árangur í mörg undanfarin ár sýnir að það er hægt.

Á árinu fengum við fimm stjörnu viðurkenningu frá evrópsku gæðasamtökunum EFQM, sem skoðuðu alla þætti starfseminnar í þaula. Þetta er mikil viðurkenning á metnaði og árangri starfsfólks okkar. Margt fleira jákvætt mætti nefna. Til dæmis liggur fyrir að flúorlosun okkar á árinu verður með því minnsta í sögu fyrirtækisins og þessa dagana er raunar verið að setja upp búnað sem mun bæta þann árangur enn frekar.

Aðstæður í efnahagslífi heimsins eru um margt æði dökkar um þessar mundir og áliðnaðurinn fer ekki varhluta af því. Meðal annars stefnir í að afkoma ISAL á árinu verði verri en hún hefur verið í háa herrans tíð. Verkefni okkar við slíkar aðstæður er að gæta ítrasta aðhalds og þess vegna þurftum við því miður að grípa til þess ráðs í haust að fækka stöðugildum um 27, þar af 13 með uppsögnum. Þetta var mjög erfið ákvörðun en óumflýjanleg. Það er raunar umhugsunarefni að uppsagnir af þessari stærðargráðu þykja varla fréttnæmar í öðrum atvinnugreinum en mikil tíðindi í okkar tilviki. Engin ástæða er til að kvarta yfir þessu því þetta eru meðmæli með áliðnaði; það endurspeglar styrk okkar og þar með gildi áliðnaðarins og þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf.

Til lengri tíma litið gera allar spár ráð fyrir stóraukinni eftirspurn eftir áli í heiminum og því er full ástæða til að ætla að framtíðin sé björt. ISAL verður öflugur þátttakandi í þeirri framtíð og stefnir sem kunnugt er að því að auka framleiðsluna um fimmtung. Þótt sá hluti fjárfestingarverkefnisins - sem er stærsta erlenda fjárfestingin á Íslandi frá hruni - hafi tafist nokkuð væntum við þess enn að lokatakmarkið um aukna framleiðslu náist árið 2014 eins og stefnt var að.

Það er sérlega ánægjulegt hve stóran ávinning íslenskt efnahagslíf hefur nú þegar haft af fjárfestingarverkefninu. Til marks um það er til dæmis sú staðreynd að frá árinu 2009 höfum við keypt þjónustu af íslenskum verkfræðistofum fyrir um 11 þúsund milljónir króna, langmest vegna þessa verkefnis.

Umfram allt er ég þó stolt af því að starfsmenn ISAL sýna á hverjum degi viðleitni til að gera stöðugt betur, fyrirtækinu og samfélaginu til heilla.

Ég þakka ykkur samstarfið á árinu og óska ykkur og fjölskyldum ykkar farsældar á komandi ári.

Rannveig Rist
forstjóri

 


« til baka

Fréttasafn

2024

febrúar, janúar

2023

október, janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar