03.01.2013

Í viðtali um framleiðslustjórnun

Birna Pála Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri steypuskála og doktor í iðnaðarverkfræði, var skömmu fyrir jól í viðtali um framleiðslustjórnun í útvarpsþáttaröðinni "Hvað er stjórnun?" sem er á dagskrá Rásar 1. Umsjónarmaður þáttarins er Þórður Víkingur Friðgeirsson, verkfræðingur og lektor við tækni-og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Útskrift af viðtalinu fer hér á eftir.

Þórður Víkingur:

Íslensk stóriðja er umdeild eins og allir vita. En það má ekki rugla þeirri umræðu saman við sjálf fyrirtækin sem vinna við stóriðjuna. Þetta eru undantekningarlaust vel rekin fyrirtæki sem hafa unnið brautryðjendastarf á Íslandi í framleiðslustjórnun og margvíslegri annarri stjórnun.

Eitt þessara fyrirtækja er Rio Tinto Alcan í Straumsvík, eða ISAL eins og fyrirtækið er jafnan kallað. Fyrirtækið hét upphaflega Íslenska álfélagið hf. og hóf álframleiðslu árið 1969. Þá framleiddi ISAL 30 þúsund tonn af áli á ári en framleiðir í dag tæp 200 þúsund tonn.

Ég var mættur einn morguninn í Straumsvík til að ræða við dr. Birnu Pálu Kristinsdóttur sem er framkvæmdastjóri steypuskála ISAL. Það er gaman að segja frá því að ég fékk smá uppeldi þegar ég heimsótti Birnu Pálu. Það var þannig að þegar ég ók inn á bílastæðið tók ég eftir að allir höfðu bakkað bílunum í stæði. Ég var dálítið seinn fyrir og til að flýta fyrir mér keyrði ég minn bíl rakleitt inn í stæðið á hefðbundinn hátt. Eftir að Birna hafði tekið á móti mér bað hún mig vinsamlega um að snúa bílnum við í stæðinu. Nú, ég gerði það auðvitað. Eftir að hafa snúið bílnum við í stæðinu steig ég inn í bílinn hjá Birnu til að aka inn á sjálft vinnusvæðið, nokkur hundruð metra leið. Ég skammast mín aðeins fyrir að viðurkenna það en ég setti ekki á mig bílbeltið - ekki fyrr en Birna bað mig kurteislega um að gera það. Hjá ISAL taka menn nefnilega öryggismál alvarlega og enginn afsláttur er gefinn á að framfylgja sjálfsögðum og eðlilegum reglum sem í senn stuðla að betri, öruggari og hagkvæmari vinnustað.

Eitt af viðfangsefnum Birnu, og þeirra hjá ISAL, er að minnka sóun með því að innleiða LEAN stjórnun eða straumlínustjórnun og hefur fyrirtækið gert það með mikilli og virkri þátttöku starfsmanna. En ég bað Birnu Pálu um að segja aðeins frá sjálfri sér.

Birna Pála:

Ég lærði á sínum tíma vélaverkfræði í Háskóla Íslands og lauk þar prófi. Ég hafði mikinn áhuga á iðnaðarverkfræði og störfum í iðnaði, sérstaklega í framleiðslu, þannig að ég ákvað að fara í framhaldsnám á því sviði. Ég lærði iðnaðarverkfræði og aðgerðarannsóknir í Seattle í Bandaríkjunum; tók fyrst masterspróf og síðan doktorspróf og var svo áfram í Bandaríkjunum eftir námið. Ég vann námsverkefni fyrir Boeing flugvélaverksmiðjurnar, sem styrktu mig til námsins, og vann svo áfram að verkefnum fyrir Boeing og einnig fyrir Microsoft í Seattle.

Síðan flutti ég til Íslands og var í þrjú ár dósent í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Það var svo árið 2003 sem ég hóf störf hér hjá ISAL, þannig að ég er að hefja mitt tíunda ár hjá fyrirtækinu. Þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími.

Framleiðslustjórnun er lykilatriði í okkar starfsemi. Við skipum út í hverri viku fjórum þúsundum tonna af áli til viðskiptavina okkar. Það er unnið hér allan sólarhringinn, allt árið um kring, því framleiðslan má aldrei stöðvast. Það skiptir því mjög miklu máli að allt sé vel skipulagt og við höfum ýmsar aðferðir og verkfæri til að sjá til þess að þetta takist. Til dæmis þarf að viðhalda öllum búnaði vel, meðal annars með fyrirbyggjandi viðhaldi, til að tryggja að verksmiðjan stoppi aldrei. Upp á síðkastið höfum við verið að innleiða LEAN aðferðafræðina sem meðal annars miðar að því að útrýma sóun úr öllum ferlum.

Þórður Víkingur:

Ég bað Birnu Pálu að útskýra aðeins hvað LEAN, eða straumlínustjórnun, er.

Birna Pála:

Hugmyndafræðin gengur út á að eyða sóun úr öllum ferlum. Til dæmis að lágmarka birgðir og eyða töfum. Hér hjá okkur gengur þetta þannig fyrir sig að við erum með daglega fundi í öllum framleiðsluhópum, þ.e. hjá öllum vöktum og svo framvegis. Þar er farið yfir hvernig reksturinn hefur gengið síðasta sólarhringinn; hvort tafir hafi orðið í framleiðsluferlinu, hvort bilanir hafi orðið, hvort við séum á áætlun með framleiðsluna og hvort gæði framleiðslunnar hafi verið í lagi. Síðan er ákveðið hvort og hvernig skuli bregðast við. Þessi nálgun hjálpar okkur að ná fram stöðugum umbótum. Stundum eru lausnirnar auðveldar en stundum er ráðist í stærri umbótaverkefni. Allt miðar þetta að því að rýna reglulega árangur og lykilmælikvarða og grípa strax inn í ef eitthvað er ekki eins og það á að vera.

Þetta byggir mikið á að vita nákvæmlega hver staðan er. Við erum til dæmis með "just-in-time" framleiðslu, það er að segja: við framleiðum beint upp í pantanir frá viðskiptavinum. Tilgangurinn er að lágmarka birgðir. Við rýnum þess vegna daglega hvort birgðasöfnun sé að eiga sér stað. Ef við sjáum frávik frá áætlunum greinum við strax hverjar séu grunnástæður þess.

Markmiðasetning er annað tæki sem er mikið notað í fyrirtækinu til að stýra rekstrinum, bæði markmiðasetning fyrir fyrirtækið í heild, einstakar deildir og einstaka starfsmenn. Markmiðin tengjast öll framleiðsluferlinu á einhvern hátt - beint eða óbeint - og það er stöðugt rýnt hvaða árangri er verið að ná.

Þórður Víkingur:

Skilar innleiðing straumlínureksturs ávinningi?

Birna Pála:

Já, hún skilar miklum ávinningi. Grunnatriðið er þátttaka starfsmanna. Það er ekki nóg að nokkrir í fyrirtækinu innleiði þetta heldur þarf allt fyrirtækið að taka þátt í því. Þetta krefst þess að starfsfólk sé vel þjálfað í að tileinka sér þessa hugsun og aðferðafræði. Stór þáttur í okkar árangri er Stóriðjuskólinn, sem ISAL hefur rekið frá árinu 1998. Í Stóriðjuskólanum læra starfsmenn um framleiðsluferlið og fleira, meðal annars straumlínustjórnun. Í innleiðingarferlinu voru auk þess haldin ýmis námskeið og vinnustofur þar sem starfsmenn voru þjálfaðir í þessari hugmyndafræði.

Þórður Víkingur:

Hefur straumlínustjórnun fest rætur á Íslandi?

Birna Pála:

Ég hef tekið eftir að það er í það minnsta mikið talað um hana. Hjá Stjórnvísi, sem við erum þátttakendur í, er til að mynda starfandi faghópur um straumlínurekstur. Fundir og ráðstefnur sem hafa verið haldnar um þetta efni hafa verið mjög vel sóttar. Þannig að það er greinilega mjög mikill áhugi á þessu - og ekki bara meðal framleiðslufyrirtækja heldur líka þjónustufyrirtækja, sem er mjög jákvætt.

En það er gott að hafa í huga að skoða vel hvað gagnast. Þetta er verkfærakista og það skiptir máli að skoða verkfærin vel og ákveða hver þeirra henta. Að sama skapi, þegar reynsla er komin á þau, að hika þá ekki við að breyta og laga verkfærin að þörfunum. Við höfum til dæmis skipt út mælikvörðunum sem við fylgjumst með þegar í ljós kemur að sumir þjóna ekki tilgangi. Með öðrum orðum: verkfærin eiga að þjóna þér; þú átt ekki að vera þræll verkfæranna.


Birna Pála Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri steypuskála.


« til baka

Fréttasafn

2024

febrúar, janúar

2023

október, janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar