09.05.2016

Grænt bókhald 2015 komið út

Grænt bókhald ISAL fyrir árið 2015 er komið út.

Það verður kynnt á opnum fundi í Hafnarborg miðvikudaginn 18. maí kl. 17:00.

Græna bókhaldið kemur eingöngu út rafrænt og má hlaða niður eintaki með því að smella hér.

Rannveig Rist forstjóri fylgir skýrslunni eftir með inngangi sem fer hér á eftir:

 

Kæri lesandi

Það er mér ánægja að fylgja Grænu bókhaldi ISAL fyrir 2015 úr hlaði með stuttu yfirliti yfir reksturinn á árinu, með áherslu á þá þætti sem varða nágranna okkar og aðra innlenda hagsmunaaðila mestu.

Það er höfuðmarkmið að allir komi heilir heim eftir vinnu sína. Því miður urðu tvö fjarveruslys á árinu, annað í kersmiðju þegar gasslanga við handbrennara gaf sig og hitt í steypuskála þegar þrýstiloki við deiglu á áltökubíl opnaðist. Báðir starfsmennirnir hlutu brunasár en náðu sér að fullu. Slys sem þessi eru ekki ásættanleg. Markmið okkar er að engin fjarveruslys verði og höfum við alloft náð þeim árangri, síðast árið 2014. Við vitum því að markmiðið er raunhæft og það er okkur hvatning.

Losun flúors og ryks á hvert framleitt tonn jókst aðeins á milli ára eftir að hafa minnkað árið á undan. Meginorsökin voru tímabundnar truflanir í kerrekstri þegar straumur var hækkaður. Eftir sem áður var losunin vel innan starfsleyfismarka og áfram er markvisst unnið að því að draga úr henni. Útblástur brennisteinstvíoxíðs var nær óbreyttur á milli ára og langt undir starfsleyfismörkum. Umhverfismælingar á loftgæðum og gróðri, sem framkvæmdar eru af óháðum þriðja aðila, sýna að umhverfisáhrif af ofangreindum þáttum eru takmörkuð. Losun gróðurhúsalofttegunda var nær óbreytt á milli ára og eru árin 2014 og 2015 þau bestu í sögu fyrirtækisins hvað þetta varðar.

Útblástur á ryki frá súrálslöndunarkrana við löndun reyndist vera of mikill. Gerðar voru breytingar á síubúnaði sem báru mjög góðan árangur og er útblásturinn nú aðeins um helmingur þess sem leyfilegt er. Þá benda útreikningar til þess að hljóðstig í íbúabyggð kunni við ákveðin skilyrði að vera yfir mörkum þegar löndunarkraninn er í gangi að næturlagi. Ákveðið hefur verið að setja upp nýjan krana og verður þetta vandamál þá úr sögunni. Til að brúa bilið verður keyptur nýr hljóðdeyfir á núverandi krana og er stefnt að því að hann verði settur upp fyrir lok þessa árs. Rétt er að nefna að hávaði við lóðamörk er undir viðmiðunarmörkum, rétt eins og verið hefur.

Tvær kvartanir bárust frá samfélaginu, báðar raunar óbeint. Í fyrra tilvikinu hafði íbúi á Hvaleyrarholti haft samband við Heilbrigðiseftirlitið vegna hávaða frá löndunarkrana. Fjallað var um úrbætur hvað þetta varðar í næstu málgrein hér að framan. Í síðara tilvikinu hafði vegfarandi haft samband við Ríkisútvarpið vegna óvenjumikils reyks frá kerskála. Orsökin var að leki hafði komið að keri.

Staðsetning á raflínum til ISAL var nokkuð til umræðu á árinu og er þar um að ræða anga af stærra máli sem varðar tengivirki Landsnets í Hamranesi, raflínur frá því og sambúð þessara mannvirkja við byggðina í Vallahverfi. ISAL hefur takmarkaða aðkomu að því máli en tók þó fúslega þátt í viðræðum Hafnarfjarðarbæjar, Landsnets og fulltrúa íbúa sem leiddu til samkomulags um farsæla lausn fyrir alla aðila.

Framleiðsla kerskála dróst aðeins saman á árinu og voru framleidd 200.501 tonn eða 5 þúsund tonnum minna en árið áður. Skýringin er einkum sú að straumhækkun olli rekstrartruflunum og þurfti því að draga tímabundið úr henni. Einnig þurfti að hægja á framleiðslu vegna yfirvinnubanns sem starfsmenn gripu til í tengslum við kjaraviðræður. Til stendur að halda áfram að hækka straum á þessu ári. Þótt aðeins hafi dregið úr framleiðslu á milli ára var hún engu að síður sú næstmesta í sögu fyrirtækisins.

Markaðsaðstæður voru ISAL óhagstæðar á árinu, sem sést best af því að söluverð afurðanna lækkaði um hvorki meira né minna en 28% frá ársbyrjun til ársloka. Þetta, ásamt því að framleiðslan var heldur minni en árið áður, varð til þess að sölutekjur lækkuðu um tæp 10% á milli ára. Tap varð af rekstrinum, um 2 milljónir Bandaríkjadala.

Rekstur ISAL hefur ekki skilað umtalsverðum hagnaði síðan 2011 en eftir sem áður skilar hann umtalsverðum gjaldeyristekjum til íslenska hagkerfisins. Hreinar gjaldeyristekjur Íslands af rekstri ISAL - sem í daglegu tali er oft kallað "það sem verður eftir" - eru að jafnaði um það bil tveir milljarðar króna á mánuði.

Rétt er að minna á að ISAL heyrir undir almennar íslenskar skattareglur á Íslandi og nýtur engra sérkjara varðandi skatta. Einnig má nefna að fyrirtækið er ekki fjármagnað með lánum frá móðurfélagi og eiginfjárhlutfallið er yfir 80%.

Kjaraviðræður settu mjög svip sinn á starfsemina á árinu. Raunar var ekki deilt um laun, enda bauð ISAL umtalsverðar launahækkanir, heldur strönduðu viðræðurnar á kröfu ISAL um að hafa sömu möguleika og öll önnur fyrirtæki til að bjóða út afmarkaða þætti í rekstrinum og leita til verktaka við tilteknar aðstæður. Niðurstaða fékkst loks í málið nú í vor þegar ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu sem bæði fyrirtækið og starfsmenn samþykktu.

ISAL er stolt af því að hafa um árabil ekki aðeins greitt hærri laun en gengur og gerist heldur jafnframt verið í fararbroddi í margvíslegum öðrum hagsmunamálum starfsmanna, svo sem menntamálum, öryggismálum og jafnréttismálum.

Það vill stundum gleymast að kannanir sýna að mun fleiri eru jákvæðir í garð álfyrirtækja en neikvæðir. Bjartari horfur í efnahagslífinu og minna atvinnuleysi eiga þó vafalaust sinn þátt í því að viðhorfin hafa heldur þróast í hina áttina á undanförnum árum. Við viljum eiga ríkara samtal við almenning, kynna betur umhverfislegan ávinning af framleiðslu áls, efnahagslegan ávinning af starfsemi álvera og frammistöðu okkar á þeim sviðum sem skipta fólk mestu máli, en einnig hlusta eftir gagnrýni og taka tillit til hennar.

Ég hvet ykkur lesendur til að senda okkur ábendingar um hvaðeina sem ykkur liggur á hjarta með ábendingaformi á vef okkar, www.riotintoalcan.is.

Rannveig Rist, forstjóri


« til baka

Fréttasafn

2024

febrúar, janúar

2023

október, janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar