16.08.2004

Heilsuátak - Grein eftir Reinhold Richter

Heilsuátak sem staðið hefur yfir á þessu ári varð Reinholdi Richter, starfsmanni Alcan í Straumsvík, innblástur í grein sem hann skrifaði og birtist í Morgunblaðinu 15. ágúst. Grein Reinholds fer hér á eftir.

"ÞAÐ HEFUR verið sagt með rökum að við sem þjóð séum orðin velmegunarfitu og hreyfingarleysi að bráð, börn jafnt sem fullorðnir þyngist stöðugt. Þetta ástand er risastórt heilbrigðisvandamál sem aðeins getur aukist sé ekki neitt að gert. Sennilega er auðvelt að reikna út hve dýrt hvert umframfitukíló mannskepnunnar er heilbrigðiskerfinu og þarafleiðandi útreiknanlegur sá sparnaður er skapast ef þessum blessuðum fitukílóum fækkar. Í gegnum árin hefur því verið rekinn samróma áróður af heilbrigðisstarfsmönnum og heilsuráðgjöfum ýmiskonar um gildi þess að líkamsþyngd okkar sé innan ákveðinna marka og við stundum einhvers konar hreyfingu. Samt þyngist þjóðin.

Hvað er þá til ráða? Forvarnir og fræðslu er yfirleitt erfitt að fjármagna og mjög svo óvíst um árangur þótt markviss fræðsla sé að sjálfsögðu nauðsyn. Ekki er hægt að skammta í okkur matinn og skikka til hreyfingar! Mörgum hefur reynst baráttan við nautnirnar erfið og það að standa einn og óstuddur í stríði við aukakílóin er flestum ofviða og sófinn og snakkið heilla meir en grænmeti og göngutúr. Það er hins vegar staðreynd að þegar hópur fólks fer að huga að sameiginlegri þörf myndast oft stemning sem er margfalt sterkari einstaklingnum og allt í einu eigum við öll möguleika.

Það er gaman að geta sagt frá því að á síðastliðnu ári vaknaði heilsustemning hjá einni vaktinni í steypuskála álversins í Straumsvík. Vaktin fékk til liðs við sig heilsuráðgjafa, sem kom á staðinn og mældi ýmis gildi og gaf hollráð um mataræði og hreyfingu. Þetta gaf svo góða raun og vakti þvílíkan áhuga í þessu stóra fyrirtæki að eitt leiddi af öðru og segja má að nánast allir starfsmennirnir, um 500 manns, hafi á einn eða annan hátt tekið þátt í heilsuátaki síðan.

Það skal tekið fram að fjölmargir starfsmenn álversins eru í kjörþyngd og langflestir við hestaheilsu. Það er þó öllum til góðs að huga að líkamsforminu og hollustu mataræðis, við erum jú það sem við borðum. Öryggis-, umhverfis- og heilsumál eru sérstakt átaksverkefni hjá ALCAN og því ekki skrítið að fyrirtækið smitaðist af áhuga starfsmanna.

 ALCAN tók strax virkan þátt í átakinu og bauð starfsmönnum og mökum í ársbyrjun upp á einkar fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur Önnu Ólafsdóttur matvæla- og næringarfræðings (Matur og hreyfing - líkami og vellíðan). Fyrirlestrinum var fylgt eftir með því að bjóða starfsmönnum upp á heilsufarsmælingu, sem segja má að nær allir hafi nýtt sér. Mæld var blóðfita ýmiskonar, blóðsykur, fituprósenta líkamsþyngdar og blóðþrýstingur. Gefið var út á vordögum vandað sérblað ÍSAL-tíðinda um heilsu og hollustu og allir starfsmenn fengu sumargjöf; veglega inneign í líkamsrækt.

Mötuneytið tekur einnig virkan þátt í átakinu, bæði er boðið upp á ávexti úti í deildum fyrirtækisins, sósa eða feiti er ekki lengur sjálfgefinn á diskinn og matseðlinum fylgir kaloríuútreikningur á einstökum máltíðum o.s.frv.

Starfsmenn hafa stofnað gönguhóp er skipuleggur jafnt styttri sem lengri gönguferðir og þess má geta að við unnum til verðlauna fyrir flesta hjólaða kílómetra í nýafstaðinni fyrirtækjakeppni "Hjólað í vinnuna".

Ég verð að játa að það sem mér kom mest á óvart er hve almennur áhugi er á að auka lífsgæðin með markvissri hreyfingu og mataræði og hve lítið þarf til þess að virkja þennan áhuga og skapa hópeflið sem svo sannarlega ýtir manni af stað í þessa heillaferð.

Það sem upp úr stendur er þónokkur lífsgæðaaukning, blóðþrýstingur hefur eflaust skánað, kílóum svo sannarlega fækkað og heilsufar almennt vonandi batnað.

Litlu hefur verið til kostað og allir sem að koma græða. Ég skora því á starfsmenn og stjórnendur vinnustaða vítt og breitt um landið og miðin að taka okkur ALCAN-starfsmenn til fyrirmyndar og hrinda af stað heilsufarsátaki sem þessu sem víðast.

Þótt flest vitum við hvort við erum hæfilega þung, þá er það ekki algilt og sjónrænu viðmiðin breytast, meðalþungi þjóðarinnar eykst og okkur finnst við í góðum málum miðað við þennan eða hinn. Til þess að vita hvort við erum í kjörþyngd er hægt að nota BMI-staðalinn (Body Mass Index), líkamshæð í metrum í öðru veldi deilt með þyngd (kg/m²), og bera útkomuna saman við staðlaða töflu:

Vannæring: BMI minna en 18,5
Kjörþyngd: BMI á bilinu 18,5-24,9
Ofþyngd: BMI á bilinu 25,0-29,9
Offita: BMI meira en 30

Einfaldara er að mæla mittisummál en kviðfitan ku vera annarri fitu hættulegri, karlmenn eiga að vera um 92-95 og kvenmenn 82-88 cm. Þessi mæling mun vera nokkuð óháð líkamslengd en í raun eru það spegillinn og raunsæið sem eru áreiðanlegustu tækin til að meta ástandið.

Gangi ykkur vel.
REINHOLD RICHTER,
starfsmaður ALCAN."


« til baka

Fréttasafn

2023

janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar