03.12.2001

Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001

Björn Steinar Sólbergsson, organisti við Akureyrarkirkju, hlaut í dag Íslensku bjartsýnis-verðlaunin 2001 (áður Bjartsýnisverðlaun Brøstes). Forseti Íslands afhenti verðlaunin við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu.

Björn Steinar Sólbergsson er fæddur á Akranesi árið 1961. Hann lauk 8. stigi í orgelleik frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar en framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu. Þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann í Rueil Malmaison í Frakklandi þaðan sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik "Prix de virtuosité" árið 1986. Björn starfar nú sem organisti og kórstjóri við Akureyrarkirkju og kennir jafnframt orgelleik við Tónlistaskólann á Akureyri. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika víða erlendis m.a. á Ítalíu, Frakklandi, Englandi, Lettlandi og á Norðurlöndum og leikið fyrir útvarp og sjónvarp.

Íslensku bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun með rætur allt til ársins 1981. Þá voru Bjartsýnisverðlaun Brøstes fyrst afhent en upphafsmaður þeirra, Daninn Peter Brøste, afhenti þau í síðasta skipti árið 1999. Þá skoraði hann á Íslensk fyrirtæki að veita verðlaunin framvegis og á síðasta ári tók ISAL þeirri áskorun. Þetta er í annað skipti sem ISAL er bakhjarl bjartsýnisverðlaunanna og fyrirtækið mun halda því áfram.« til baka