Úthlutun styrkja til Íþróttabandalags Hafnarfjarðar
Miðvikudaginn 25. júní 2025 komu til Straumsvíkur fulltrúar aðildarfélaga Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) og tóku á móti styrkjum fyrir iðkendur yngri en 18 ára. Rio Tinto á Íslandi og Hafnarfjarðarbær veita styrk til félaganna tvisvar á ári.
Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto á Íslandi, Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH afhentu styrkina.
Einnig var undirritaður nýr samningur sem gildir fyrir árin 2025-2027 á milli Íþróttabandalags Hafnarfjarðar, Rio Tinto á Íslandi og Hafnarfjarðarbæjar. Rio Tinto og Hafnarfjarðarbær greiða hvor um sig 12 milljónir króna árið 2025 inn í samstarfið til stuðnings íþróttum barna í Hafnarfirði. Úthlutanir styrkja eru í júní annars vegar og hins vegar í desember út frá umsóknum félaga og reglum samningsins. Óskað var eftir umsóknum frá aðildarfélögum ÍBH og sóttu 12 félög um stuðning úr sjóðnum, en þau voru alls 13 árið 2024. Sótt var um stuðning fyrir 5631 barn, sem er fjölgun frá fyrra ári.
Rio Tinto á Íslandi er afar stolt af því að styðja við íþróttastarf ungmenna í sínum heimabæ, Hafnarfirði, með þessu móti þar sem öll aðildarfélög ÍBH fá að njóta góðs af.