17.10.2005

Fjöreggið afhent Alcan

Alcan fékk á dögunum afhent Fjöreggið, viðurkenningu frá Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands (MNÍ), fyrir lofsvert framtak á matvælasviði eins og segir í niðurstöðu dómnefndar. Rannveig Rist, forstjóri, veitti Fjöregginu viðtöku á Matvæladegi MNÍ föstudaginn 14. október.

Viðurkenningin er mikil hvatning fyrir þá sem hafa á undanförnum misserum unnið að aukinni vitund um heilsu og heilsutengd málefni á vinnustaðnum. Í þeim efnum er af ýmsu að taka, t.d. má nefna breytingar í mötuneyti, áherslu á hreyfingu, næringu og andlega heilsu, líkamsræktarkort sem starfsmenn hafa fengið, gönguferðir fyrir starfsmenn og almenning, fyrirlestra um mikilvægi góðs mataræðis o.fl.

Fjöreggið er afhent árlega að undangengnum tilnefningum, sem félagsmenn geta sent inn. Í ár fékk Alcan margar tilnefningar og því ljóst að þær áherslur sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár hafa vakið athygli langt út fyrir fyrirtækið.

Jón Steindór Valdimarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins afhenti verðlaunin (sjá mynd), en hann sat í dómnefnd ásamt Önnu Sigríði Ólafsdóttur, næringarfræðingi, og Dóru Gunnarsdóttur, matvælafræðingi.


« til baka