Fyrirtækið

Álverið í Straumsvík er rekið af Rio Tinto á Íslandi hf. Verksmiðjuheiti álversins er ISAL.

ISAL tilheyrir Rio Tinto Aluminium sem er álsvið breska námafélagsins Rio Tinto . Félagið leggur mikla áherslu á heilsu og öryggi starfsfólks, sjálfbæra þróun og heiðarleika í vinnubrögðum. Rio Tinto er með höfuðstöðvar í London en umfang starfseminnar er mest í Ástralíu og Norður-Ameríku.

Helsta framleiðsluafurð ISAL eru stangir úr áli sem í daglegu tali kallast boltar í Straumsvík. Boltarnir eru tilbúnir til þrýstimótunar hjá viðskiptavinum fyrirtækisins. Stangirnar eru framleiddar í fjölmörgum málmblöndum og í mismunandi stærðum, allt eftir óskum viðskiptavina. Álið úr Straumsvík er notað í ýmsar sérhæfðar vörur, svo sem í byggingariðnaði, bílaiðnaði, í ýmsa prófíla og ramma utan um sólarsellur.

Viðskiptavinir ISAL eru um 70 talsins, flestir í Evrópu. Hjá ISAL starfa tæplega 380 manns með ólíkan bakgrunn. Fjölbreytnin er mikil og innan fyrirtækisins býr mikil þekking meðal starfsmanna sem eiga stóran þátt í velgengni þess. ISAL hefur ætíð lagt mikla áherslu á fræðslumál en Stóriðjuskólinn er stærsta verkefnið í fræðslustarfi.

ISAL leggur ríka áherslu á að bæta stöðugt frammistöðu sína í umhverfismálum en fyrirtækið setur metnaðarfull umhverfismarkmið og hefur mótað skýra stefnu. ISAL hefur verið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi, samkvæmt alþjólega staðlinum ISO 14001, frá árinu 1997 og var fyrst íslenskra fyrirtækja að taka upp slíka vottun. Umhverfisstjórnunarkerfið er samofið gæða- og öryggisstjórnunarkerfi sem eru vottuð samkvæmt alþjóðlegu stöðlunum ISO 9001 og ISO 45001.

Markvissar stöðugar umbætur og straumlínustjórnun eru jafnframt ein af meginstoðum fyrirtækisins. Einn af meginþáttum umhverfisstjórnunar er að fylgjast með og mæla mikilvæga umhverfisþætti, áhættumeta reksturinn til að koma í veg fyrir hugsanleg umhverfisatvik og rannsaka atvik sem upp koma til að fyrirbyggja að þau endurtaki sig. Þjálfun starfsfólks og verktaka er einnig mjög mikilvægur þáttur, auk þess að upplýsa samfélagið um umhverfismál fyrirtækisins.

Starfsleyfi Rio Tinto á Íslandi hf. var gefið út af Umhverfisstofnun október 2021 og gildir til 1. nóvember 2037. Umhverfisstofnun er jafnframt eftirlitsaðili. Fyrirtækið fellur undir fyrirtækjaflokkinn 2.1 álframleiðsla, samkvæmt fylgiskjali með reglugerð um grænt bókhald.

 

Vissir þú að ..

  • Hátæknilegur og flókinn búnaður stýrir öllu framleiðsluferli álversins.
  • Meðallaun starfsmanna eru mun hærri en meðallaun í landinu.
  • Við erum einn stærsti útflytjandi af vörum frá Íslandi.
  • Starfsmenn eru tæplega 400