15.08.2006

111 starfsmenn hlaupa til góðs

111 starfsmenn Alcan í Straumsvík hafa skráð sig til leiks í Reykjavíkurmaraþoni sem hlaupið verður þann 19. ágúst. Auk þess að gera sjálfum sér gott með þátttökunni styrkja starfsmennirnir gott málefni í leiðinni, því hver tíu manna hópur sem tekur þátt í hlaupinu fær að ráðstafa 100 þúsund krónum til góðgerðafélags að eigin vali. 

Þessi mikla þátttaka er fagnaðarefni og ljóst er að margir munu njóta góðs af.  Einn hópurinn hefur t.d. ákveðið að styrkja samtökin Heilaheill, en þau vinna að velferðar- og hagsmunamálum þeirra sem hafa orðið fyrir skaða af völdum heilablóðfalls. Annar hópur ætlar að styðja Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, um 100 þúsund krónur. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) mun einnig njóta góðs af þessari miklu þátttöku því einn hópurinn hleypur til stuðnings deildinni svo dæmi séu nefnd.

Tæmandi listi yfir öll þau félög sem starfsmenn Alcan ákveða að styðja með þátttöku sinni í hlaupinu verður birtur hér á síðunni á næstu dögum, þegar fulltrúar hvers liðs hafa afhent styrkina.  


« til baka

Fréttasafn