11.05.2009
Kælivatn frá álverinu til vökvunar á golfvelli Keilis
Í dag var tekin í notkun vatnslögn frá álverinu í Straumsvík yfir á Hvaleyrarvöll, golfvöll Golfklúbbsins Keilis. Vatnið verður nú notað til að vökva golfvöllinn, en hann hefur fram til þessa verið vökvaður með vatni frá almenningsveitunni á svæðinu.
Alcan á Íslandi hf. átti frumkvæði að, kostaði og framkvæmdi lagningu vatnsleiðslunnar, enda samræmist verkefnið stefnu fyrirtækisins um að nýta auðlindir sem best.
Um er að ræða vatn sem notað er til að kæla rafspenna í aðveitustöð álversins. Það er nú leitt um það bil tveggja kílómetra leið í tjörn á 8. braut vallarins og getur rennslið orðið allt að 30 lítrum á sekúndu. Vatnið er um 15 gráðu heitt þegar það kemur í tjörnina. Úr tjörninni er því dælt inn á vökvunarkerfi vallarins, auk þess sem affall er úr tjörninni út í sjó.
Álverið notar mikið vatn, einkum til kælingar í aðveitustöðinni og til kælingar við álsteypu. Það starfrækir eigin vatnsveitu og fær vatn úr borholum skammt frá. Vatnið kemur úr Kaldá, vatnsmikilli á sem rennur undir hrauninu og til sjávar, meðal annars í Straumsvík, rétt við álverið.
“Það er mikill fengur í því að fá þetta vatn frá álverinu. Það sparar okkur umtalsverðan kostnað, en auk þess hefur það sýnt sig að heita vatnið er betra fyrir grasið en það sem við höfum notað hingað til,” segir Bergsteinn Hjörleifsson, formaður stjórnar Keilis.
Hvaleyrarvöllur þykir einn skemmtilegasti golfvöllur landsins og raunar þótt víðar væri leitað, ekki síst vegna hins einstæða umhverfis í hrauninu við sjóinn.
“Ég er mjög ánægð með að vatnið frá okkur sé nú farið að gagnast okkar góðu nágrönnum á Hvaleyrarvelli. Okkur finnst þýðingarmikið að fullnýta þær auðlindir sem við notum og þetta samrýmist því markmiði ákaflega vel,” segir
Bergsteinn Hjörleifsson formaður Keilis, Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi og Lúðvík Bergvinsson bæjarstjóri í Hafnarfirði við afhendingu vatnslagnarinnar í golfskála Keilis í dag.
« til bakaDeila