15.02.2010

Tólf nemendur útskrifast úr grunnnámi Stóriðjuskólans

Útskrift nemenda úr grunnnámi Stóriðjuskólans fór miðvikudaginn 10. febrúar síðastliðinn en tólf nemendur útskrifuðust að þessu sinni.  Þetta er fimmtándi hópurinn sem útskrifast úr grunnnámi Stóriðjuskólans. Nú hafa því alls 195 einstaklingar lokið grunnnámi skólans og hlotið titilinn „stóriðjugreinir“.

Við útskriftarathöfnina sagði Rannveig Rist, forstjóri félagsins, að útskriftarhópurinn í ár væri sögulegur því þetta var í fyrsta skiptið sem útskrift fer fram eftir að opnað var fyrir umsóknir starfsmanna sem ekki starfa í framleiðsludeildum álversins.  "Framlag skólans er því ekki eingöngu að auka faglega þekkingu og færni í starfi, þótt það sé meginverkefnið, heldur brýtur hann niður múra og stuðlar að betri samvinnu. En samvinna er einmitt eitt af fjórum gildum okkar fyrirtækis og ein af forsendum þess að ná góðum árangri í rekstri."

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, flutti ávarp og hrósaði Alcan á Ísland fyrir það góða framtak sem Stóriðjuskólinn væri og óskaði útskriftarnemum kærlega til hamingju með áfangann.

Stóriðjuskólinn var stofnaður árið 1998 og fór fyrsta útskrift hans fram árið 2000.  Árið 2004 var fyrst boðið upp á framhaldsnám við Stóriðjuskólann og hafa 22 nemendur lokið námi þaðan með titilinn „áliðjugreinir".


« til baka

Fréttasafn