31.05.2010

ISAL sigrar sinn flokk í Hjólað í vinnuna

Átakinu Hjólað í vinnuna lauk í síðustu viku og bar ISAL sigur úr býtum í sínum flokki, sjöunda árið í röð. Verðlaunaafhending fór fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum síðastliðinn föstudag og fékk ISAL viðurkenningu fyrir sigur í báðum keppnisgreinum síns flokks en keppt var í flestum kílómetrum og flestum hjóladögum, hlutfallslega miðað við þátttakendur. 166 starfsmenn ISAL í 22 liðum tóku þátt í átakinu og hjóluðu þeir samtals 21.540 kílómetra. Innan ISAL fór 10 manna lið Tour de Straumsvík lengsta vegalengd, 3.664 kílómetra, en þar á eftir kom Álliðið með 2.891 kílómetra.

Frábær þátttaka var í keppninni í ár en alls voru tæplega 10.000 þátttakendur skráðir í 1.347 lið frá 551 vinnustað. Samtals voru hjólaðir 647.865 kílómetrar í keppninni, sem jafngildir um 484 hringjum í kringum landið.

Á myndinni hér að neðan gefur að líta einstaklinga úr liðum Rio Tinto Alcan og Actavis en liðin tvö voru hvað mest áberandi í sínum flokki.


« til baka

Fréttasafn