31.12.2010

Rannveig Rist hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins

Rannveig Rist hlaut í gær Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins. Í ávarpi sínu við afhendinguna á Hótel Sögu þakkaði hún öllu starfsfólki ISAL fyrir þann árangur sem náðst hefur í rekstri fyrirtækisins.

Þá sagðist hún vonast til að ákvörðun Rio Tinto um að ráðast í tæplega 60 milljarða króna fjárfestingarverkefni í Straumsvík myndi styrkja orðstír Íslands sem fjárfestingarkosts meðal annarra erlendra fjárfesta. Hún rifjaði einnig upp að stór fjárfestingarverkefni í Straumsvík hefðu oftan en ekki komið á besta tíma fyrir íslenskt efnahagslíf. Það ætti jafnt við um byggingu álversins í lok sjöunda áratugar síðustu aldar, stækkun þess um miðjan tíunda áratuginn, og fjárfestingarverkefnið sem nú er hafið og lýtur að framleiðsluaukningu og breytingu á framleiðsluafurðum.

Það var Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem afhenti viðurkenninguna.

Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, kynnti niðurstöðuna og sagði að réttar ákvarðanir Rannveigar og samstarfsfólks hennar hefðu komið álverinu klakklaust í gegnum heimskreppuna og það hefði átt þátt í að tryggja að Rio Tinto réðist í þá stóru fjárfestingu sem ákvörðun var tekin um fyrr á árinu.

Frá afhendingunni á Hótel Sögu í gær: Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra, Björgvin Guðmundsson ritstjóri Viðskiptablaðsins og Rannveig Rist.


« til baka

Fréttasafn