07.01.2011

Yfirlýsing vegna auglýsinga í morgun

Yfirlýsing frá Alcan á Íslandi hf.

Í morgun birtust í fjölmiðlum heilsíðuauglýsingar þar sem álverið í Straumsvík er hvatt til að tryggja að álflutningum félagsins verði sinnt af skipum með íslenskum áhöfnum. Vísað er til þess í auglýsingunni að fyrirtækið hafi lýst yfir vilja til að aðstoða Ísland við uppbygginguna í kjölfar efnahagserfiðleika landsins.

Af þessu tilefni viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

Það er jákvætt að athygli sé beint að framlagi Alcan á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins, því líklega hafa fá fyrirtæki lagt eins mikið af mörkum eftir hrun.

 • Rio Tinto Alcan hefur ráðist í 57 milljarða króna fjárfestingu í Straumsvík, sem er eftir því sem næst verður komist stærsta fjárfesting á Íslandi eftir hrun
 • Fjárfestingin skapar yfir 600 ársverk á framkvæmdatímanum
 • Íslenskt verkfræðifyrirtæki, HRV, var valið til að hafa umsjón með hönnun og framkvæmd verksins, sem var ekki sjálfgefið með hliðsjón með umfangi og eðli verksins
 • Reynt er að haga útboðum í tengslum við fjárfestinguna með þeim hætti að hámarka möguleika íslenskra fyrirtækja, m.a. með því að brjóta útboðsþætti niður í smærri einingar
 • Fyrirtækið féllst á að fyrirframgreiða tekjuskatt að fjárhæð ríflega 270 milljónir króna árið 2010 til að mæta aukinni tekjuþörf ríkissjóðs
 • Þess má einnig geta að nýr orkuskattur, sem lagður var á í fyrsta sinn árið 2010, kostar álverið um það bil 1 milljón króna á dag

Ávinningur Íslands af reglulegri starfsemi álversins í Straumsvík er mjög umtalsverður.

 • Álverið kaupir vörur og þjónustu af yfir 300 íslenskum fyrirtækjum fyrir um 5 milljarða króna á ári – fyrir utan raforku
 • Álverið eyðir um það bil 1,5 milljörðum króna á Íslandi í hverjum einasta mánuði (laun, raforka, skattar og gjöld, og vörur og þjónusta)

Allt ofangreint sýnir að við „sýnum viljann í verki“, svo vitnað sé í áskorunina sem beint er til álversins í auglýsingunni.

Ekkert er óeðlilegt við tilhögun skipaflutninga álversins.

 • Það er rangt sem fullyrt er í auglýsingunni í morgun, að skip sem sinna álflutningum fyrir álverið séu „mönnuð áhöfnum á smánarlaunum“; samkvæmt upplýsingum álversins eru kjör áhafnanna sambærileg við kjör íslenskra áhafna
 • Umtalsverðum skipaflutningum til og frá Íslandi er sinnt af skipum með erlendar áhafnir; slíkt er fráleitt einsdæmi
 • Þegar samstarfi lauk við íslenskt skipafélag, sem áður sinnti álflutningum fyrir álverið, hafði það félag um nokkurra ára skeið notað bæði íslenskar og erlendar áhafnir í þessa flutninga
 • Álverið myndi fagna því ef félag sem notaði íslenskar áhafnir yrði hlutskarpast í því útboði sem nú stendur yfir


Fyrir hönd Alcan á Íslandi hf.
Ólafur Teitur Guðnason
framkvæmdastjóri samskiptasviðs


« til baka

Fréttasafn