22.03.2013
Um tekjuskatt - af gefnu tilefni
Vegna umfjöllunar RÚV um tekjuskatt álvera vill Rio Tinto Alcan á Íslandi hf., sem rekur álverið í Straumsvík, koma eftirfarandi á framfæri:
Álverið í Straumsvík hefur árum saman verið í hópi þeirra lögaðila sem greiða hæstan tekjuskatt á Íslandi.
Fyrirtækið hefur greitt mörg hundruð milljónir króna í tekjuskatt á hverju einasta ári í a.m.k. 15 ár. Er áreiðanlega vandfundið það einkafyrirtæki hér á landi sem greitt hefur hærri tekjuskatt á því tímabili.
Fram til ársins 2005 greiddi fyrirtækið 33% tekjuskatt samkvæmt upphaflegum fjárfestingarsamningi. Nam skatturinn frá 4 til 14 milljónum dollara á hverju ári a.m.k. aftur til ársins 1997, eða um 500 til 1.800 milljónum króna á ári á núverandi gengi.
Um tíma greiddi fyrirtækið mun hærri tekjuskattsprósentu en nokkurt annað fyrirtæki hér á landi, enda var almenn skattprósenta fyrirtækja lækkuð í 18% árið 2002.
Frá árinu 2005 hefur fyrirtækið fallið undir almennar skattareglur og nýtur engra sérkjara um tekjuskatt.
Greiddur tekjuskattur vegna rekstraráranna 2007-2011 nam alls 5,2 milljörðum króna, eins og sjá má af meðfylgjandi töflu, eða að jafnaði um einum milljarði króna á ári.
Fyrirtækið greiddi langhæst opinber gjöld allra lögaðila í Reykjanessskattumdæmi vegna rekstraráranna 2007 og 2008, eða þrisvar til fjórum sinnum hærri gjöld en þeir sem næstir komu, sem voru sveitarfélög.
Þá greiddi fyrirtækið hæst opinber gjöld allra lögaðila fyrir utan ríkið, Reykjavíkurborg og fjármálafyrirtæki vegna ársins 2010, og var einnig meðal 10 hæstu gjaldenda vegna ársins 2011.
Hér eru ótaldar ýmsar greiðslur til ríkis og sveitarfélaga, svo sem raforkuskattur sem nemur um það bil einni milljón króna á dag.
Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. hefur að nær öllu leyti fjármagnað sjálft þær 60 milljarða framkvæmdir sem staðið hafa yfir í Straumsvík undanfarin misseri og skuldar móðurfélagi sínu óverulega fjármuni.
« til bakaDeila