25.02.2005

Fjarstýring að glæsilegu húsi afhent

Ný og glæsileg ál- og tækjageymsla ásamt vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn í flutningasveit var formlega vígð á föstudaginn þegar Rannveig Rist, forstjóri, afhenti flutningasveit fjarstýringu að húsinu.  Með húsinu rætist langþráður draumur um góða og örugga vinnuaðstöðu fyrir flutningasveitina og ekki ætti að væsa um hópinn í þessu stórgóða húsi.

Húsið er 4.000 m2 að stærð og í því er aðstaða til að geyma allt ál sem bíður útskipunar, en hingað til hefur þurft að geyma það utanhúss með tilheyrandi óþægindum og slysahættu vegna klakamyndunar á vetrum. Í húsinu er einnig aðstaða til að geyma öll tæki sem notuð eru við hafnarvinnuna, þar verða skrifstofur og starfsmannaaðstaða fyrir þá 22 starfsmenn sem vinna í flutningasveit.

Aðalhönnuður hússins er arkitektastofan Arkís og byggingarverktakinn Sveinbjörn Sigurðsson hf. sá um framkvæmdina. Húsið var 15 mánuði í byggingu og kostnaður við framkvæmdirnar er um 280 milljónir króna.

Sérstaklega er bent á tvö atriði sem gera húsið sérstætt. Í fyrsta lagi eru forsteyptu þakeiningarnar þær lengstu sem framleiddar hafa verið og notaðar á Íslandi en þær eru 26.5 metra langar. Í öðru lagi er bent á 9 stórar fellihurðir á framhlið hússins, þar sem hver hurðarfleki er um 80 m2 og í raun er hægt að opna samtímis nánast alla framhlið hússins.


« til baka