02.01.2019
Daníel Bjarnason hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2018
Daníel Bjarnason, tónlistamaður og hljómsveitarstjóri, hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2018 sem afhent voru á Kjarvalsstöðum í dag. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin, sem eru áletraður gripur úr áli frá ISAL í Straumsvík og ein milljón króna í verðlaunafé.
Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Upphafsmaður þeirra var danski athafnamaðurinn Peter Bröste en álverið ISAL í Straumsvík hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá því að Bröste dró sig í hlé árið 2000. Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari verðlaunanna.
Í dómnefnd verðlaunanna eru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Rannveig Rist og Örnólfur Thorsson.
Daníel Bjarnason er fæddur árið 1979. Hann stundaði nám við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan árið 2003. Hann stundaði framhaldsnám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi á árunum 2004–2007.
Af hljómsveitum sem hann hefur unnið með má nefna Fílharmóníusveitir Los Angeles og New York, sinfóníuhljómsveitirnar í Toronto, Tókýó og Gautaborg, Philharmonia, London Symphony Orchestra, Fílharmóníusveit BBC, Britten Sinfonia og Asko/Schoenberg Ensemble auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hljómsveitar Íslensku óperunnar.
Á síðasta ári voru m.a. frumflutt tvö ný verk eftir Daníel. Annars vegar var um að ræða óperuna Brothers, sem byggð er á samnefndri kvikmynd Susanne Bier, og var sýnd á vegum dönsku þjóðaróperunnar í Árósum. Sýningin var valin tónverk ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum og hlaut einnig Reumert-verðlaunin sem ópera ársins í Danmörku. S
Hitt verkið er nýr fiðlukonsert sem Pekka Kuusisto og Fílharmóníusveit Los Angeles frumfluttu í Hollywood Bowl undir stjórn Gustavo Dudamel. Í kjölfarið hefur Kuusisto flutt konsertinn margoft á tónleikum í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum m.a. undir stjórn Esa-Pekka Salonen og Osmo Vänskä.
Um síðastliðna helgi var leiksýningin Ríkharður III frumsýnd með tónlist Daníels Bjarnasonar í Borgarleikhúsinu og á nýársdag var upptaka af sýningu Íslensku óperunnar Bræður sýnd Rúv.
Daníel hefur verið staðartónskáld hjá Frits Philips Muziekgebouw í Eindhoven síðan 2016. Hann gegndi einnig stöðu staðarlistamanns hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands 2015-2018. Daníel hefur gefið út hljómdiska undir fána Bedroom Community og Sono Luminus.
Verðlaunahafinn Daníel Bjarnason ásamt Rannveigu Rist og hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.
« til bakaDeila