17.04.2003

Öryggis- og vinnuumhverfisstjórnun vottuð

Alcan á Íslandi hefur fyrst allra fyrirtækja á Íslandi fengið staðfest að öryggis- og vinnuumhverfisstjórnun þess standist alþjóðlega staðalinn OHSAS 18001. Þetta var staðfest í úttekt á gæðakerfi Alcan í Straumsvík fyrir skemmstu, sem nú tekur til þriggja þátta; gæðastjórnunar, umhverfisstjórnunar og öryggis- og vinnuumhverfisstjórnunar .

OHSAS 18001 staðallinn er kröfulýsing á sviði öryggis- og vinnuumhverfisstjórnunar. Fyrirtæki sem starfa skv. staðlinum þurfa sífellt að vinna að umbótum og eru líklegri en önnur til að ná árangri. Staðallinn á meðal annars að tryggja, að öryggis- og heilbrigðismál séu órjúfanlegur þáttur í mats- og ákvörðunarferli við fjárfestingar, framkvæmdir, rekstur og kaup á vöru og þjónustu.

Mjög góður árangur hefur náðst undanfarin árum en það er skylda okkar að leita sífellt leiða til að gera betur. OHSAS staðallinn er eitt þeirra hjálpartækja sem stuðlar að enn betri árangri og mun festa enn frekar í sessi þá öryggismenningu sem hefur styrkst mjög á undanförnum árum. Móðurfélag Alcan á Íslandi stefnir að því, að öll fyrirtæki innan samsteypunnar fái öryggisstjórnun sína vottaða skv. OHSAS 18001 áður en þetta ár er úti. Mörg hver hafa þegar náð þessum áfanga, en önnur undirbúa sig nú fyrir úttekt síðar á árinu.

Þetta er í annað skiptið á fáum árum, sem Alcan á Íslandi ryður brautina fyrir vottanir af þessu tagi, því árið 1997 var fyrirtækið fyrst til að fá umhverfisstjórnunarkerfi sitt vottað skv. staðlinum ISO 14001. Til viðbótar áðurnefndum vottunum stenst gæðakerfi Alcan á Íslandi gæðastaðalinn ISO 9001.


« til baka