Heilbrigðismál

ISAL er eitt fárra fyrirtækja á Íslandi sem hefur starfsmann í fullu starfi við að sinna heilsu- og heilbrigðismálum starfsmanna, auk þess sem trúnaðarlæknir fyrirtækisins hefur aðstöðu á svæðinu þangað sem starfsmenn geta leitað. Þessi áhersla endurspeglar stefnu fyrirtækisins í umhverfis-, heilbrigðis og öryggismálum en þá málaflokka teljum við náskylda og mikið samstarf er milli aðila sem sinna þeim.

Í heilbrigðismálum er áhersla lögð á vinnuverndarmál af ýmsum toga og með markvissum hætti er starfsfólk hvatt til að hugsa um heilsuna. Umfangsmikið heilsuátak varð t.d. kveikjan að breyttum lífsstíl hjá mörgum starfsmönnum og viðurkenningar frá opinberum aðilum sýna að árangurinn vekur athygli í samfélaginu. Meðal annars má nefna viðurkenningu frá Vinnueftirliti ríkisins fyrir góðan árangur í vinnuverndarmálum og Fjöreggið sem Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands afhendir fyrir góðan árangur á þessu sviði.

Margir starfsmenn okkar eru mjög áhugasamir um þennan málaflokk, en sá áhugi kristallast til dæmis í mikilli þátttöku í átakinu Reykjavíkurmaraþoninu og Hjólað í vinnuna, sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir árlega.  

Vissir þú að ..

  • Margir starfsmenn ISAL ýmist ganga eða hjóla í vinnuna, sumir allt árið um kring.
  • Streita er talin eitt stærsta heilbrigðisvandamálið í Evrópu.
  • Stoðkerfisvandi er algengasta orsök vinnutengdra heilsufarsvandamála í heiminum.
  • Vegna stoðkerfisvandamála tapast allt að 2% af vergri þjóðarframleiðslu Evrópusambandsríkjanna.